Mercedes-Benz A er Bíll ársins 2013 á Íslandi. Þetta var tilkynnt við afhendingu Stálstýrisins í sal Blaðamannafélags Íslands.

Það er Bandalag íslenskra bílablaðamanna, BÍBB, sem stendur að valinu. Alls voru 38 bílar tilefndir að þessu sinni í þremur flokkum; fólksbílaflokk, jeppum og jepplingum og vistvænum bílum.

Fram kemur í tilkynningu að eftir prófanir hafi níu bílar staðið eftir sem komust í úrslit. Í fólksbílaflokki voru það Mercedes-Benz A, Volvo V40 og Audi A6. Í jeppa- og jepplingaflokki Hyundai Santa Fe, Range Rover Evoque og Audi Q3. Í flokki vistvænna bíla komust í úrslit Peugeot 508 RXH, Opel Ampera og Lexus GS 450h.

Dómnefnd tók þessa níu bíla til kostanna með prófunum. Þar var meðal annars tekið mið af hönnun, öryggi, aksturseiginleikum og verði.

Verðugur bíll
Niðurstaða dómnefndar var sú að nýr Mercedes-Benz A væri þess verðugur að teljast bíll ársins á Íslandi. Um er að ræða gerbreyttan og í raun alveg nýja gerð af minnsta fólksbíl Mercedes-Benz. Bíllinn er vel búinn í grunninn og státar af einstaklega fínstilltum aksturseiginleikum. Verð á honum er frá 4,6 milljónum króna. Í öðru sæti var Volvo V40 og Audi A6 í þriðja sæti.

Sigurvegari í flokki varð jeppa- og jepplinga var ný kynslóð Hyundai Santa Fe. Range Rover Evoque var númer 2 og og Audi Q3 númer 3. Í flokki vistvænna bíla stóð Lexus GS 450h tvinnbílinn uppi sem sigurvegari.

Val Bandalags íslenskra bílablaðamanna endurspeglar faglegt mat á nýjum bílum sem hafa komið á markað hérlendis síðastliðna tólf mánuði og skara fram úr á sviði hönnunar, notkunar, rýmis, aksturseiginleika, öryggis og verðs.

Það er Frumherji sem er styrktaraðili valsins.