Hinn nýi Lexus LS 460, sem frumkynntur var í janúar sl. var útnefndur heimsbíll ársins (World Car of the Year 2007) af alþjóðlegum hópi blaðamanna á sérstakri samkomu þeirra á bílasýningunni í New York þann 5. apríl sl.

Blaðamennirnir völdu Lexusinn af lista sem á voru alls 28 bílar sem til greina komu við valið. Bílablaðamenn frá 22 löndum höfðu tilnefnt bíla á þennan lista. Niðurstaða dómendanna var sú að LS 460 væri ‘holdgervingur’ kjörorða Lexus sem segja eitthvað á þá leið að stefna skuli til fullkomleikans. Bíllinn sé lúxusvagn með klassísku útliti í nútíma útfærslu. Enginn vafi sé um að gæðin séu í ríkum mæli til staðar og aflið sé vel útilátið auk þess sem brátt verði fáanleg tvinnútgáfa þannig að menn geti ekið í öflugum en jafnframt umhverfismildum lúxusbíl og þar með lausir við sektarkennd yfir því að vera umhverfisspillar.
Lesendur og blaðamenn tímaritsins Automotive Engineering International hafa einnig nýlega hrifist af Lexus LS 460 og útnefnt hann best hannaða og byggða bíl ársins 2007.

Meðal kosta sem tilgreindir voru við bílinn sem forsendur valsins eru eftirfarandi:

– átta hraða sjálfskipting
– forárekstrarvörn (pre-crash safety system)
– háþróuð rafaugu sem sjá hindranir kring um bílinn og vara við þeim
– kerfi sem fylgist með líðan og heilsu ökumanns
– neyðarstýrishjálp
– tölvustýring á vél- og drifbúnaði
– rafræn árekstursvörn v. aftanákeyrslu
– VVT-IE rafræn kambássstilling