Screen shot 2017-01-20 at 09.24.57Peu­geot 3008 er bíll árs­ins 2017 í Dan­mörku, sam­kvæmt niður­stöðum danskra bíla­blaðamanna í nýliðnum des­em­ber. Spurn­ing er hvort hann hreppi líka heimstitil­inn því 3008-bíll­inn nýi er kom­inn í úr­slit í keppn­inni um þau.

Alls lentu sjö bíl­ar í lokaum­ferð viður­kenn­ing­ar­inn­ar „heims­bíll árs­ins“ en til­kynnt verður á bíla­sýn­ing­unni í Genf 6. mars hver hnossið hlýt­ur.

Bíl­arn­ir sjö eru, í staf­rófs­röð, Alfa Romeo Giulia, Citroen C3, Mercedes E-class, Nis­s­an Micra, Peu­geot 3008, Toyota C-HR, Volvo S90 og V90.

Eft­ir for­val í keppn­inni um bíl árs­ins féllu þess­ir bíl­ar úr leik: Ast­on Mart­in DB11, Audi Q2, Audi A5 Coupé, Ford Edge, Ford Ka+, Fiat 124 Spi­der, Fiat Tipo, Honda Cla­rity, Honda NSX, Jagu­ar F-Pace, Kia Niro, Kia Sporta­ge, Kia Optima, Maserati Levan­te, Porsche 718, Porsche Pana­mera, Renault Tal­ism­an, Renault Scenic, Renault Mé­ga­ne, Seat Ateca, Skoda Kodiaq, Suzuki Balono, Toyota Prius, Toyota Mirai, og Volkswagen Tigu­an.

Í um­sögn um Peu­geot 3008 lofaði dóm­nefnd­in hönn­un bíls­ins, fyr­ir­taks inn­an­rými og ein­stak­lega góða akst­ur­seig­in­leika, eins og þar seg­ir en hið síðast­nefnda kom nefnd­ar­mönn­um í opna skjöldu.

Franski bílsmiður­inn seg­ir að um jeppa sé að ræða þótt út­litið þykir frem­ur benda til þess að um borg­ar­bíl sé að ræða en fjór­hjóla­drifs­bíl sem kann bet­ur við sig á mal­ar­und­ir­lagi á víðavangi en borg­armal­biki. Mætti kannski frem­ur segja að um jepp­ling sé að ræða og víst er nokkuð hærra upp und­ir lægsta punkt en á dæmi­gerðum stall­bak. Hærra er und­ir til dæm­is Nis­s­an Qashqai en 3008-bíl­inn og sá síðar­nefndi er á styttri fjöðrum og minni dekkj­um en það á sinn þátt í góðum akst­ur­seig­in­leik­um hans.

Fylg­ir fregn­um að markaðsdeild Peu­geot hafi ráðið meiru um hönn­un bíls­ins og búnað en verk­fræðing­ar fyr­ir­tæk­is­ins. Sem er skilj­an­legt í ljósi þess að geiri jeppa og jepp­linga er sá sem vaxið hef­ur hvað mest alls staðar í Evr­ópu und­an­far­in miss­eri.

Grein þessi birtist á mbl.is