Nú liggur fyrir hvaða 12 bílar komu í lokaúrval fyrir val á Bíl ársins að þessu sinni eftir forval sem íslenskir bílablaðamenn hafa unnið að síðasta mánuðinn. 29 bílar voru í íslenska forvalinu en einn heltist úr lestinni vegna breyttra forsenda hjá umboðsaðila. Þetta voru nokkru færri bílar en oft áður. Helgast það til dæmis af því að í ljósi markaðsaðstæðna hafa sum bílaumboð kosið að fresta kynningum á nýjum gerðum.

Valið er eftir fjórum flokkum og var flokkur millistærðarbíla stærstur að þessu sinni.

Í flokki smábíla komust í úrslit: Fiat 500, Mazda2 og Suzuki Splash.

Í flokki millistærðarbíla komust í úrslit: Citroen C4 Picasso, Ford Focus og Hyundai i30.

Í flokki stærri bíla komust í úrslit: Audi A4, Honda Accord og Mercedes-Benz E-class Metan.

Í flokki jeppa/jepplinga komust í úrslit: Subaru Forester, Toyota Land Cruiser 200 og VW Tiguan.

Það er sem endranær Bandalag íslenskra bílablaðamanna (BÍBB) sem stendur að valinu og verður valinn Bíl ársins 2009 á Íslandi úr þessum hópi eftir daglanga prófun á akstursbraut. Sigurvegarinn hlýtur Stálstýrið. Ef horft er til umboða þá er ljóst að Hekla átti flesta bíla í forvalinu eða 12 talsins. Brimborg var þar næst með 7 bíla. Bakhjarlar valsins eru Skeljungur, Frumherji og Tryggingamiðstöðin.