Toyota Prius, tvinnbíllinn sem kynntur var hér á landi í nýrri útfærslu í vor, hefur verið útnefndur Bíll ársins í Evrópu 2005. Þetta er mikilvægasta viðurkenning sem bílaframleiðanda getur hlotnast í Evrópu.
Sjö bílar kepptu til úrslita um titilinn Bíl ársins 2005 og voru yfirburðir Toyota Prius töluverðir. Hann hlaut samtals 405 stig, Citroën C4, sem varð í öðru sæti, hlaut 267 stig, og Ford Focus, sem varð í þriðja sæti, 228 stig.

Toyota Prius er nú í annarri kynslóð. Flestir eru vanir því að í bílum sé aðeins ein vél en Toyota Prius hefur tvær vélar, bensínvél og rafmótor. Við akstur verður til töluverð orka sem í venjulegum bílum gufar upp engum til gagns, t.d. þegar bremsað er. Í Toyota Prius er þessari orku breytt í rafmagn sem síðan knýr bílinn áfram ásamt bensínvélinni.

Þetta þýðir að bíllinn eyðir að jafnaði 4,1 lítra af bensíni á hverja 100 kílómetra, sem er um helmingur á við aðra bíla í sama stærðarflokki. Þetta hefur í för með sér sparnað fyrir eigandann og mun minni mengun fyrir umhverfið. Þó er litlu fórnað í aksturseiginleikum og krafti, því Toyota Prius er aðeins 11 sekúndur að ná 100 km hraða. Þessi litla bensíneyðsla leiðir til þess að frá Toyota Prius kemur um einu tonni minna af koltvísýringi á ári en frá venjulegum bíl. Sem enn frekara framlag til umhverfisins, var Prius hannaður með það að leiðarljósi að vera allur endurvinnanlegur. Það var ekki síst af umhverfisástæðum sem bíllinn varð fyrir vali dómnefndarinnar.

Bíll ársins í Evrópu 2005
Toyota Prius 406 stig
Citroën C4 267 stig
Ford Focus 228 stig
Opel Astra 180 stig
Renault Modus 151 stig
Peugeot 407 135 stig
BMW 183 stig