Bandalag íslenskra bílablaðamanna afhenti í dag viðurkenningar fyrir bíla ársins í fjórum flokkum í athöfn í Listasafni Ásmundar Sveinssonar við Sigtún. Það var Volvo S40 sem hlaut nafnbótina Bíll ársins 2004 og var það samgönguráðherra Sturla Böðvarsson sem afhenti forsvarsmönnum Brimborgar, innflutningsaðila Volvo, Stálstýrið.

Volvo S40 hlaut 231 stig, Mazda RX8 224, Hyundai Tucson 211 og Kia Picanto 172 stig. Volvo S40 bar jafnframt sigur úr býtum í flokki fjölskyldubíla, Mazda RX8 í flokki sportbíla, Hyundai Tucson í flokki jeppa og jepplinga og Kia Picanto í flokki smábíla.

Það er nýstofnað Bandalag íslenskra bílablaðamanna sem veitir verðlaunin en sjö manna dómnefnd samtakanna valdi bíl ársins úr tæplega 40 tilnefndum bílum.