Bandalag Íslenskra Bílablaðamanna (BÍBB) hefur tilkynnt hvaða bíla það eru sem komust í úrslit við val á Bíl ársins á íslandi 2021. Er það fimm manna forvalsnefnd sem velur úrslitabílana. Í flokki minni fólksbíla voru það Opel Corsa e, Honda e og Toyota Yaris sem urðu fyrir valinu. Í flokknum stærri fólksbílar urðu efstir VW ID.3, Peugeot 2008 og Opel Mokka. Minni jeppar og jepplingar er þriðji flokkurinn en þar voru VW ID.4, Skoda Enyaq og MG EHS PHEV hlutskarpastir, en í stærri jeppum og jepplingum Land Rover Defender, Ford Explorer PHEV og Kia Sorento. Bílarnir sem komust í úrslit verða svo prófaðir af tólf manna dómnefnd frá miðlum eins og Fréttablaðinu, Morgunblaðinu, FÍB blaðinu, Viðskiptablaðinu, visir.is og bilablogg.is. Tilkynnt verður um úrslit í sérstöku hófi BÍBB í húsakynnum Blaðammanafélagsins í Síðumúla 23 mánudaginn 7. júní næstkomandi.