Það var rafbíllinn Volkswagen ID.4 sem hlaut titilinn Bíll ársins 2021 eftir nokkra bið. Er það annað skiptið í röð sem hreinn raf bíll sigrar og meira en helmingur bílanna í lokavalinu voru 100% raf bílar. Eini bíllinn sem ekki var rafmagnaður vann þó jeppaflokkinn en það var nýr Defender sem hélt uppi heiðri brunahreyfilsins.

Bíll ársins er nú aftur valinn eftir tuttugu mánaða hlé, en vegna heimsfaraldursins var ákveðið að fresta valinu í fyrra fram til vorsins 2021. Úrslitin í vali á Bíl ársins 2021 eru nú ljós en að þessu sinni var það rafbíllinn Volkswagen ID.4 sem bar sigur úr býtum. Sigraði hann nokkuð örugglega með 838 stigum en næstur kom systurbíllinn Skoda Enyaq með 787 stig. Athygli vekur að í fjórum e–fstu sætunum eru rafbílar en í 4.-5. sæti er jeppinn Land Rover Defender, sem er eini bíllinn í valinu sem ekki er að einhverju leyti rafmagnaður. Sjö bílar í lokavalinu voru hreinir rafbílar svo að rafmagnið er að taka yfir, ef svo má segja. Flokkur hinna stærri Jeppaflokkurinn er eini flokkurinn þar sem að enginn bíll er 100% rafmagnaður. Guðjón Guðmundsson hjá Viðskiptablaðinu er hrifinn af nýjum Land Rover Defender. „Með fullkominni virðingu fyrir sögunni verður að segjast að nýr Defender býr auðvitað yfir mun meiri þokka og er satt best að segja einhver flottasta jeppayfirbyggingin á markaðinum í dag. Hann öskrar á mann að keyra sig og keyra sig út!“ Kristinn Ásgeirsson hjá visir.is tekur í sama streng. „Land Rover Defender er að innan eins og Suzuki Jimny á sterum. Afbragðs þróun og greinilegt að Defender hefur heimsótt siðmenninguna aðeins. Er að öðru leyti mjög reffilegur og fær í flestan sjó, næstum bókstaflega.“ Um Ford Explorer PHEV hafði Finnur Thorlacius þetta að segja: „Þvílíkur orkubolti, mikið pláss og ágætt verð og svo er líka hörkugaman að keyra hann.“

Aksturseiginleikar Opel Corsa e

Í flokki smærri fólksbíla kepptu tveir rafbílar og tvinnbíllinn Toyota Yaris sem nýlega vann titilinn Bíll ársins í Evrópu. Hann varð í öðru sæti í flokknum en Opel Corsa e sigraði með öruggu forskoti og hrósuðu honum margir fyrir skemmtilega aksturseiginleika. Að mati Kristins Ásgeirsson hjá visir.is er Opel Corsa e skemmtilegur og góður bíll. „Hann býr yfir drægi sem dugar allflestum og það er skemmtilegt að keyra hann.“ Jóhannesi Reykdal hjá Bilablogg. is fannst skemmtileg keppni í flokki smábíla. „Það kemur enn á óvart hversu bæði Opel Corsa e og Toyota Yaris eru góðir valkostir í þessum flokki, en Honda-e líður fyrir það að komast stutt á einni hleðslu.“ Að mati Finns Thorlacius hjá sjónvarpsþættinum Bílalífi er Honda e virkilega skemmtilega hannaður krúttbolti en líður fyrir drægi. Fleirum þótti vert að minnast á Honda e eins og Róbert Róbertssyni hjá Viðskiptablaðinu, en hann hafði þetta að segja um Honda e. „Honda e sker sig úr fjöldanum, sérstaklega fyrir útlitið sem er afar sérstakt en retró og flott í mínum huga. Bíllinn er ótrúlega lipur og auðvelt að leggja honum í stæði og taka á honum alls kyns snúninga.“ Björn Kristjánsson hjá FÍB-blaðinu nefnir að Toyota Yaris sé skemmtilegur akstursbíll með verðmiða stærri bíls.

Spennandi keppni

Keppnin var spennandi í flokki stærri fjölskyldubíla og aðeins munaði fjórum stigum á Volkswagen ID.3 og Opel Mokka-e. Malín Brand hefur skrifað að undanförnu fyrir Bilablogg.is og hafði þetta að segja um Mokka-e. „Opel Mokka er skemmtilega hannaður rafbíll sem fæst í frábærum litum, eins og þessum græna. Vænn og grænn!“ Henni þótti líka mjög varið í nýjasta merkið í valinu en það er MG EHS PHEV tengiltvinnbíllinn „MG EHS PHEV er bíll með mjög marga stafi í nafni sínu, marga kosti, á hagstæðu verði og afar vel búinn.“ Björn Kristjánsson hjá FÍB blaðinu tiltók MG jepplinginn sérstaklega. „MG kemur sterkur inn á íslenskan markað með vel útbúinn bíl með einstaklega þýðgenga vél.“ Líkt og í flokki minni jeppa og jepplinga var nokkur munur á systurbílunum VW ID.4 og Enyaq annar vegar og Opel Mokka og Peugeot e-2008 hins vegar. Sýnir það að þótt að bílarnir séu byggðir á sama grunni skiptir alltaf máli hvernig lokaútkoman verður.

Með karakter og flott útlit

Sigur Volkswagen ID.4 þurfti svo sem ekki að koma á óvart enda stutt síðan að hann hlaut hin virtu verðlaun Heimsbíll ársins 2021. Guðjón Guðmundsson hjá Viðskiptablaðinu hrósar VD ID.4 fyrir rými. „Hann kemur á óvart fyrir mikið rými, hreint ágæta aksturseiginleika og útlitslega er hann einn fallegustu rafbílanna í stærðarflokknum.“ Samstarfsmaður hans, Róbert Róbertsson, er sammála. „ID.4 er nútímalegur og töff hannaður að innan sem utan. Hann er einnig með mjög góða aksturseiginleika. Volkswagen hefur tekist vel til með þessum nýja bíl sem er sannkallað hæfileikabúnt.“ Bílablaðamaður Fréttablaðsins er sammála þeim kumpánum enda varð ID.4 efstur í hans vali. Þegar kom að því að velja á milli VW.ID.4 og Skoda Enyaq sem báðir hafa svo mikið til brunns að bera var það karakter og útlit ID.4 sem gerði gæfumuninn, sagði Njáll Gunnlaugsson.

Screenshot 2021-06-16 at 15.24.49