Screen shot 2018-10-03 at 21.30.08

Volvo V60 á brautinni í Kapelluhrauni. Mynd © Tryggvi Þormóðsson.

Kia Ceed var bíll ársins í flokki minni fólksbíla, Volvo V60 í flokki stærri fólksbíla, Volkswagen T-Roc í flokki minni jeppa og Volkswagen Touareg í flokki stærri jeppa.

Bandalag íslenskra bílablaðamanna (BÍBB) stendur á ári hverju fyrir vali á Bíl ársins og var valið tilkynnt við athöfn í húsnæði Blaðamannafélags Íslands í gærkveldi. Sigurvegarinn í ár var Volvo V60. Þetta árið var 31 bíll sem uppfyllti það skilyrði að vera gjaldgengur í valinu, en bílarnir þurfa annaðhvort að vera nýir bílar eða af nýrri kynslóð. Forvalsnefnd fjögurra aðila í Bandalagi íslenskra bílablaðamanna völdu 12 þeirra í úrslit í fjórum flokkum þessu sinni, eftir að hafa prófað þá alla. Þessir 4 flokkar voru: Minni fólksbílar, stærri fólksbílar, minni jeppar og stærri jeppar. Það kom svo í hlut 9 manna valnefndar að lokaprófa þessa tólf bíla og var það gert sem fyrr á Kvartmílubrautinn í Kapelluhrauni. Að prófunum loknum var þeim svo gefin einkunn hvað 12 mismunandi þætti þeirra varðar.

Ceed, T-Roc og Touareg unnu sína flokka

Sigurvegari í flokki smærri fólksbíla reyndist Kia Ceed, í öðru sæti Mercedes Benz A-Class og í því þriðja Ford Focus. Í flokki stærri fólksbíla stóð efstur á blaði Bíll ársins, þ.e. Volvo V60, í öðru sæti var Alfa Romeo Giulia og Kia Stinger í því þriðja. Í flokki minni jeppa trónaði hæst Volkswagen T-Roc, í öðru sæti varð Skoda Karoq og Hyundai Kona í því þriðja. Í flokki stærri jeppa var Volkswagen Touareg sigurvegarinn, Volvo XC40 í öðru sæti og BMW X3 í því þriðja. Í þessum síðastnefnda flokki var minnsti munur á milli þeirra þriggja bíla sem náðu í úrslit, eða aðeins 27 stig.

Nokkrir yfirburðir Volvo V60

Bíll ársins þessu sinni, Volvo V60 fékk 807 stig í einkunnagjöf dómnefndar og hafði sigur með þónokkrum yfirburðum. Þegar stig allra 12 bílanna lágu fyrir kom í ljós að næst flestu stigin fékk Alfa Romeo Giulia með 782 stig, en langt er síðan að bíll frá Alfa Romeo hefur verið í vali á Bíl ársins og að þessu sinni virðist Alfa Romeo hafa aldeilis stimplað sig inn með stæl. Þriðja flestu stigin hlaut svo Volkswagen Touareg, eða 776 stig. Í fjórða sætinu reyndist svo Kia Ceed með 773 stig og í því fimmta Volvo XC40 með 767 stig.