Bíll ársins 2008 á Íslandi er Land Rover Freelander. Þetta var gert kunnugt við hátíðlega athöfn í Ásmundarsafni í Sigtúni á föstudaginn. Kristján Möller samgönguráðherra afhenti verðlaunin fulltrúa B&L.

Sigur Land Rover Freelander var nokkuð afgerandi. Hann hlaut alls 200 stig af 225 mögulegum en næsthæstur að stigum varð Skoda Roomster, sem hlaut 185 stig. Það var skoðun dómnefndarmanna að Freelender hafi borið af keppinautum sínum í akstri. Þar að auki er hann með öflugan drifbúnað með hið rafeindastýrða Terrain Response-drifkerfi. Hann er nútímalegur í útliti og staðfesting á þeim umbótum sem hafa átt sér stað á framleiðslu Land Rover. Hann er hærra verðlagður en keppinautarnir en fyrir vikið fá kaupendur mikinn bíl.

Þetta er í fjórða sinn sem Bandalag íslenskra bílablaðamanna (BÍBB) stendur að vali á bíl ársins á Íslandi og hafa aldrei fleiri bílar verið í forvali. Bakhjarlar valsins eru Skeljungur, Frumherji og Tryggingamiðstöðin.

Niðurstaða valsins í einstökum flokkum var eftirfarandi:

Bíll ársins í flokki smábíla: Skoda Roomster

Bíll ársins í flokki millistærðarbíla: Subaru Impreza

Bíll ársins í flokki stærri bíla: Mercedes-Benz C-lína

Bíll ársins í flokki jeppa/jepplinga: Land Rover Freelander