Bandalag íslenskra bílablaðamanna, BÍBB, hefur valið Volkswagen Tiguan Bíl ársins 2009. Í vali dómnefndar er tekið mið af fimm þáttum, þ.e. hönnun, aksturseiginleikum, rými, öryggi og verði. Vægi hvers þáttar í heildareinkunn er 25%.

Í umsögn dómnefndar, sem skipuð er sjö af reyndustu bílablaðamönnum landsins, kemur meðal annars fram að VW Tiguan er „yfirburðabíll og ekki aðeins í samanburði við aðra jepplinga. Hann er eins og hugur manns og hyggilegur hvernig sem á er litið.“ Í annarri umsögn segir: „Traustvekjandi bíll í sívaxandi flokki jepplinga og býður uppá skemmtilegar tækninýjungar. Vönduð smíð og vel frágengin.“

Tiguan bar sigurorð af tólf öðrum bílum sem innbyrðis kepptu í fjórum stærðarflokkum, þ.e. flokki smábíla, millistærðarbíla, stærri fjölskyldu- og lúxusbíla og jeppa/jepplinga.

VW Tiguan kom á markað í Evrópu seint á síðasta ári og í framhaldi af því á markað hérlendis. Hann er boðinn með 150 hestafla bensínvél og 140 og 170 hestafla dísilvél. Tiguan varð sjálfkrafa sigurvegari í flokki jeppa og jepplinga þar sem hann keppti við Subaru Forester, sem hafnaði í öðru sæti, og Toyota Land Cruiser 200, sem hafnaði í þriðja sæti.

Mazda2 sigrar í flokki smábíla
Í flokki smábíla öttu kappi Fiat 500, Mazda2 og Suzuki Splash. Eftir harða keppni reyndist Mazda2 standa upp úr sem sigurvegari í flokknum. Í umsögn dómnefndar segir m.a.: „Þessi bíll kemur fram á hárréttum tíma á samdráttarskeiði. Tekist hefur að bjóða talsvert léttari og sparneytnari bíl en fyrirrennarinn var án þess að fórna rými og þægindum. Réttur bíll á réttum tíma.“ Rétt á hæla Mazda2 kom Fiat 500.

Ford Focus sigrar í flokki millistærðarbíla
Í flokki millistærðarbíla bar sigur úr býtum Ford Focus. Í umsögn dómnefndar segir m.a.: „Skemmtilegir og góðir aksturseiginleikar ásamt rými og þægindum eru aðall þessa bíls sem kemur sterkur inn í vinsælum stærðarflokki.“ Í öðru sæti varð Hyundai i30 og Citroen C4 Picasso í því þriðja.

Honda Accord sigrar í flokki stærri bíla
Í flokki stærri fjölskyldubíla og lúxusbíla bar Honda Accord sigur úr býtum með talsverðum yfirburðum. Þegar upp var staðið munaði eingöngu einu stigi á honum og VW Tiguan í kjöri sem Bíll ársins 2009. Í umsögn dómnefndar segir m.a. um Accord: Honda Accord: „Verulega góður bíll, hvernig sem á er litið.“ Í öðru sæti hafnaði Audi A4 og Mercedes-Benz E NGT í því þriðja.

Þetta er í fimmta sinn sem BÍBB stendur fyrir vali á bíl ársins. Volvo S40 var valinn Bíll ársins 2006, Suzuki Swift 2006, Lexus IS 2007 og Land Rover Freelander 2008. Nafnbótinni fylgir verðlaunagripurinn Stálstýrið til varðveislu í eitt ár.

Bakhjarlar valsins eru Skeljungur og Frumherji.