Stærsta stund hvers bílaárs er þegar tilkynnt er um val á Bíl ársins í Evrópu. Vinna er þegar hafin við val á Bíl ársins 2007. Nú þegar hefur verið valinn 41 bíll til að kljást um titilinn og um miðjan nóvember verður svo endanlegt val tilkynnt. Núna er því tímabært að menn veðji á sinn hest.

Sjö bílar verða valdir úr hópi þessa 41 bíls og verða þeir kynntir í næsta mánuði. Dómnefndin samanstendur af 58 bílablaðamönnum frá 22 löndum. Enginn þeirra er frá Íslandi, enn sem komið er.

Niðurstöður dómnefndar hafa oftar en ekki komið mönnum í opna skjöldu og sýnist mörgum sem mikil þjóðernishyggja sé oft á tíðum ríkjandi. Þannig velja þýskir bílablaðamenn bíl frá sínu heimalandi og ítalskir frá sínu. Af einhverjum ástæðum hefur stór hluti dómnefndarinnar jafnan verið skipaður blaðamönnum frá Suður-Evrópu og er þetta ekki síst talin ástæða þess að fremur lítt merkilegir bílar eins og Fiat 126, Fiat Uno, Citroën GS, Simca 1307, Simca Horizon og fleiri slíkir hafa verið valdir Bílar ársins í Evrópu.

Mörgum að óvörum var Fiat Panda valinn Bíll ársins 2005 og þótti það renna enn frekari stoðum undir þá kenningu að ójafnt væri skipt á milli landa í dómnefndinni. Sænska útgáfa bílablaðsins Auto motor og sport velur bíl ársins á hverju ári og gefur hverjum bíl prósentustig (frá 0-100). Panda fékk hjá tímaritinu lægsta prósentustig í sögu stigagjafar blaðsins. Á síðasta ári var Renault Clio valinn Bíll ársins (sem var sjötti titill Renault).

Það skiptir bílaframleiðendur miklu máli að geta státað af þessum titli í auglýsinga- og markaðsskyni. Framleiðendur reyna því jafnan að stilla upp nýjustu bílum sínum fyrir dómnefndina, jafnvel bílum sem eru ekki komnir á almennan markað. Að þessu sinni eru t.d. tveir nýir bílar sem ennþá hafa ekki verið markaðssettir, þ.e. ný kynslóð Mini og splunkunýr c-bíll frá Volvo, C30.
Annars eru það þessi bílar sem berjast um útnefninguna Bíll ársins 2007 í Evrópu:

Alfa Brera/Spider
Audi All Road
Audi Q7
Audi TT
Cadillac BLS
Chevrolet Aveo
Chevrolet Captiva
Chevrolet Epica
Citroen C4 Picasso
Citroen C6
Daihatsu Terios
Daihatsu Trevis
Dodge Caliber
Fiat Grande Punto
Ford Galaxy
Ford S-Max
Honda Civic
Hyundai Accent
Hyundai Santa Fe
Jeep Commander
Jeep Compass
Jaguar XK
Kia Carens
Kia Carnival/Sedona
Kia Magentis
Lexus IS
Mazda MX-5
Mercedes-Benz CL
Mercedes-Benz GL
Mercedes-Benz R
Mini
Nissan Note
Opel Corsa
Peugeot 207
Skoda Roomster
SsangYong Kyron
Subaru B9 Tribeca
Suzuki SX4/Fiat Sedici
Toyota RAV4
Volvo C30
Volvo S80