Screen shot 2017-03-06 at 21.26.56

Peugeot 3008 verðlaunaafhendingin við opnun Bílasýningarinnar í Genf.

Eftirsóknarverðustu verðlaun bílageirans ár hvert er eflaust titillinn Bíll ársins í Evrópu, en tilkynnt var um hver hlaut hnossið á Bílasýningunni í Genf fyrir stundu. Það var Peugeot 3008 jepplingurinn sem varð í fyrsta sæti meðal dómnefndar 58 bílablaðamanna frá 22 löndum í Evrópu, en hann hlaut alls 319 stig. Stutt á eftir kom Alfa Romeo Giulia með 296, og þriðji var ný E-lína frá Mercedes-Benz með 197 stig. Þetta er í fjórða sinn sem franski bílaframleiðandinn hlýtur titilinn, en Peugeot 504 vann árið 1969, og svo 405 og 307 nokkru seinna. Peugeot tekur við titlinum af Opel, en einmitt í dag var tilkynnt um kaup PSA samsteypunnar á Opel merkinu, en PSA framleiðir meðal annars Peugeot. Aðrir bílar í lokavalinu, sem innihélt alls sjö bíla voru Citroën C3, Nissan Micra, Toyota C-HR og Volvo S90/V90.

Fréttin birtist á billinn.is